Formáli¶
Þetta kennsluefni er ætlað til að styðja við kennslu í áfanganum Stærðfræðigreining II við Háskóla Íslands. Það er bæði aðgengilegt sem vefsíða, http://sigurdur.hi.is/stae205, og sem pdf-skjal sem hentar til útprentunar. Efnið byggir upprunalega á glærupakka sem Rögnvaldur Möller útbjó fyrir sambærilegan áfanga. Efnið er skrifað í Markup-tungumáli í kerfinu Sphinx sem upphaflega var hannað fyrir hjálpina í forritunarmálinu Python. Benedikt Steinar Magnússon aðlagaði kerfið þannig að það hentar til að útbúa kennsluefni og naut við það aðstoðar Sólrúnar Höllu Einarsdóttur. Kerfið er opið og allar viðbætur við það eru aðgengilegar á http://github.com/edbook. Arnbjörg Soffía Árnadóttir og Þorsteinn Hjörtur Jónsson sáu um uppsetningu á efninu í Stærðfræðigreiningu II og kann ég þeim bestu þakkir fyrir.
Janúar 2016, Sigurður Örn Stefánsson
Sumarið 2016 var þýðingu lykilorða bætt við kerfið. Símon Böðvarsson sá um forritunarvinnuna. Þýðingar eru sóttar úr Orðaskrá Íslenska stærðfræðafélagsins. Þegar músabendill svífur yfir lykilorði birtist fyrsta þýðing þess samkvæmt orðaskránni. Í sumum tilfellum eru margar mögulegar þýðingar sem eiga misvel við en þá er hægt að smella á orðið til að sjá alla möguleika.
Janúar 2017, Sigurður Örn Stefánsson